Detroit borg í Michigan ríki hefur óskað eftir því að verða úrskurðuð gjaldþrota og er þetta stærsta borgargjaldþrot í bandarískri sögu. Neyðarstjóri var skipaður yfir borginni í mars og ef orðið verður við ósk hans um gjaldþrotaúrskurð verður hægt að selja eignir borgarinnar upp í skuldir, að því er segir í frétt Fox.

Rick Snyder, ríkisstjóri Michigan, skipaði Kevin Orr neyðarstjóra yfir borginni og setti hann saman drög að nauðasamningi og lagði fyrir kröfuhafa. Drögin fólu það í sér að kröfuhafar, þar á meðal stéttarfélög og lífeyrissjóðir borgarstarfsmanna hefðu aðeins fengið brot greitt af kröfum þeirra á borgina. Kröfuhafar höfnuðu tilboðinu.

Vandamál Detroit eru djúpstæð. Á milli áranna 2000 og 2010 fækkaði borgarbúum um 250.000 þúsund og eru þeir nú helmingi færri en þeir voru á sjötta áratug síðustu aldar. Fjöldi fyrirtækja og stór hluti millistéttar borgarinnar er flúinn og skatttekjur því ekki nema svipur hjá sjón. Talið er að halli borgarsjóðs í ár sé um 380 milljónir dala og langtímaskuldir eru að minnsta kosti 14 milljarðar dala, en gætu verið allt að 20 milljarðar að sögn Orr.