Deutsche Bank þarf að greiða 1,5 milljarða bandaríkjadala í skatt vegna skattalagabreytinga í Bandaríkjunum. Bankinn mun því ekki skila hagnaði árið 2017. Þar að auki segja forsvarsmenn bankans að tekjur af miðlun fjármálagerninga hafi dregist saman um 22% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs miðað við sama tíma í fyrra.

Í frétt á vef BBC segir að vegna þessa hafi hlutabréfaverð í bankanum lækkað um 6%. Bankinn, sem skilaði hagnaði hvorki 2015 né 2016, hefur staðið í kostnaðarsömum málaferlum, meðal annars vegna ásakana um að eiga þátt í peningaþvætti.