Þrátt fyrir að ná ekki manni inn á þing fengi Dögun alls 41,8 milljónir króna í greiðslur frá ríkinu miðað við niðurstöðu skoðanakönnunar MMR frá 18. apríl síðastliðnum.

Árlega er úthlutað fé úr ríkissjóði til þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi eða hafa fengið a.m.k. 2,5% atkvæða í alþingiskosningum. Fjárhæðinni er úthlutað eftir atkvæðamagni. Samkvæmt fjárlögum þessa árs nema framlög til stjórnmálaflokka um 290 milljónum króna, en þau hafa farið lækkandi eftir því sem liðið hefur á kjörtímabilið.

Miðað við þá forsendu að framlögin verði 290 milljónir króna og að úrslit kosninganna verði í samræmi við könnun MMR frá 18. apríl fengi Dögun 3,6% atkvæða og um 10,4 milljónir króna árlega, eða um 41,8 milljónir króna yfir allt kjörtímabilið.

Framlag til Pírata myndi nema 77,7 milljónum króna yfir kjörtímabilið, Vinstri-græn fengju 94 milljónir, Björt framtíð 96,3 milljónir og Samfylkingin 156,6 milljónir. Sjálfstæðisflokkurinn fengi svo 297 milljónir í sinn hlut og Framsóknarflokkurinn 319 milljónir króna.

Fjallað er um framlög til stjórnmálaflokka í Viðskiptablaðinu sem kom út í síðustu viku. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu hér .