Donald Kohn, fráfarandi aðstoðarseðlabankastjóri Bandaríkjanna, mun hefja störf hjá Brookings Institution eftir að hann lætur af störfum nú um mánaðarmótin.

Frá þessu er greint á fréttavef Reuters en væntanlega mun fjögurra áratuga reynsla hans úr bandaríska seðlabankanum nýtast vel hjá hugveitunni.

Kohn er sérhæfður í peningastjórnun og regluverki fjármálageirans en hann mun nú taka sæti í rannsóknarráði Brookings hugveitunnar (verða svokallaður senior fellow).

Kohn þykir vel metinn sem aðstoðarbankastjóri bandaríska seðlabankans. Hann er doktor í hagfræði með próf frá Michigan háskóla og hefur birt fjölmargar fræðigreinar. Hann hóf störf hjá seðlabankanum í Kansas ríki árið 1970 en hefur starfað hjá bandaríska seðlabankanum frá 1982.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, tilnefndi Janet Yellen, seðlabankastjóra San Francisco, sem aðstoðarseðlabankastjóra. Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur þegar samþykkt tilnefningu hennar en fulltrúardeildin á enn eftir að taka hana fyrir.