Smásala jókst óvænt á Evrusvæðinu í júlí, þrátt fyrir mikla lækkun í sölu í Þýskalandi. Sala í löndunum tólf sem hafa tekið upp evruna hefur aukist um 0,6% í júlí, en aukningin var 0,3% í júní. Í fyrra var aukningin 2,5% í júlí, en 1,5% í júní. Greiningaraðilar höfðu spáð að smásala myndi dragast saman um 0,5%.

Hryðjuverkaógn kostaði British Airways 5,2 milljarða

Tap British Airways vegna öryggisráðstafanna í kjölfar hryðjuverkaógnarinnar í London kostaði flugfélagið um 5,2 milljarða króna. Frá 10. til 17. ágúst þurfti flugfélagið að aflýsa 1.280 flugferðum. Talsmenn flugfélagsins segja að reksturinn hafi nú náð sér aftur á strik, en bókanir hafi þó ekki náð aftur sama magni og áður var.


Framkvæmdarstjóri Viacom segir af sér

Hlutabréf í fjölmiðlafyrirtækinu Viacom lækkuðu um 0,5% við fregnir af afsögn framkvæmdarstjórans Tom Freston. Philippe Dauman var ráðinn í hans stað. Undir stjórn Freston varð Nickelodeon vinsælasta kapalsjónvarpsstöðin í Bandaríkjunum.


Standard & Poor's gefa út skýrslu um kosningar í Svíþjóð

Samkvæmt nýútgefinni skýrslu matsfyrirtækisins Standard & Poor's um áhrif kosningaúrslita á horfur sænska ríkisins mun sveigjanleiki tekna ríkisins aukast ef hægriflokkur ber sigur úr býtum. En hinsvegar munu AAA horfur ríkisins verða óbreyttar, svo lengi sem aðhalds sé gætt í fjármálum. Jafnaðarflokkurinn, sem nú er við völd, leggur áherslu á sterkt velferðarkerfi á kostnað skattalækkana. Hægriflokkurinn hefur hins vegar boðað miklar skattalækkanir.

Evrópusambandið varar Tyrki við

Tyrkir hafa fengið viðvörun þess efnis að hleypi þeir ekki skipum frá gríska hluta Kýpur inn í hafnir sínar, geti það haft áhrif á viðræður um inngöngu Tyrklands í Evrópusambandið. Evrópusambandið hefur gagnrýnt tyrknesk stjórnvöld fyrir trega til að aðlaga tollastefnu sína að Evrópusambandinu.

HSBC gefur upp hlutabréfaeign forstjóra bankans

Stuart Gulliver, forstjóri breska fjárfestingarbankans HSBS, á eða hefur kost á eignast hlutabréf að andvirði 3,9 millarðar króna í bankanum, en bankinn gaf upp upplýsingar hlutabréfaeign Gulliver í fyrsta skipti á þriðjudag. Stjórn bankans segir að hlutabréfaréttur Gulliver endurspegli góða frammistöðu hans í rekstri bankans.

Hluthafar Euronext-kauphallarinnar óánægðir

Þrátt fyrir að hagnaður Euronext-kauphallarinnar hafi aukist talsvert á fyrri helmingi árs hafa hluthafar gagnrýnt framkvæmdarstjóra kauphallarinnar fyrir að halda áfram með áætlanir um sameiningu við kauphöllina í New York. Síðan NYSE og Euronext náðu samkomulagi í júní, hefur gengi hlutabréfa NYSE lækkað um 5%, en hlutabréf samkeppnisaðilans Deutsche Boerse hafa hækkað um 10%, sem þýðir að nú er tilboð Deutche Boerse hærra heldur en NYSE.