Björgunaraðgerðir á evrusvæðinu eru misheppnaðar og þau Angela Merkel Þýskalandskanslari og Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti hafa staðið sig illa, að mati dr. Martin Feldstein. Hann bendir á að ekki hafi verið rétt að leggja Grikkland að jöfnu við stöðu mála á Ítalíu og Spáni. Þvert á móti er litlu við að líkja. Grikkir eru í vonlausri stöðu á sama tíma og efnahagslífið á Ítalíu er að rétta úr kútnum. Þá telur hann evruna Grikkjum fjötur um fót. Þeir eigi að taka drökmuna upp á ný, taka á sig sársaukafulla gengisfellingu og auka samkeppnishæfni landsins.

„Evrusvæðið mun ekki hrynja þótt eitt eða fleiri lönd, kannski Grikkland og Portúgal, yfirgefi evrusamstarfið“ segir Feldstein en bætir við að það veki furðu að evrópski seðlabankinn hafi ekki komið í veg fyrir of mikla skuldsetningu evruríkjanna með hækkkun stýrivaxta á sínum tíma og aðildarríkjunum sett ströng skilyrði um leyfilegan halla á fjárlögum.

Feldstein segir skuldastöðu Grikkja ósjálfbæra. Skuldabyrðin sé einfaldlega of mikið og lántökukostnaðurinn of hár.

Hann segir mistök Merkel og Sarkozy felast í því að líkja Grikklandi við Ítalíu og Spán. „Þau hefðu miklu frekar átt að leggja áherslu á það hversu ólík löndin eru í stað þess að segja þau svipuð og að hrun Grikklands gæti haft áhrif á hin löndin. Í raun gerðu þau illa verra.“

Feldstein hefur jafnframt efasemdir um neyðarbjörgunarsjóð evruríkjanna. Í fyrsta lagi dregur hann í efa að sjóðurinn verði nokkru sinni nógu stór til að koma skuldsettum evruríkjum til hjálpar. Í öðru lagi eigi hann ekki að kaupa kaupa ítölsk og spænsk ríkisskuldabréf. „Það setur ekki næga pressu á stjórnmálamenn í löndunum að taka sig á og skera nægilega mikið niður til að koma efnahagslífi landanna á réttan kjöl,“ segir hann.