Bandaríski seðlabankinn ætlar að draga úr stuðningi sínum við efnahagslífið á næstu mánuðum og kaupa skuldabréf af bönkum og fjármálafyrirtækjum fyrir 65 milljarða dali á mánuði í stað 75 áður. Kaupin eru einn liður í stuðningi við efnahagslífið. Við bætast lágir stýrivextir og aðrar aðgerðir seðlabankans.

Bankastjórnin sendi tilkynningu í gær þar sem fram kemur að ástæðan fyrir því að bankinn ætli að draga úr stuðningi við efnahagslífið sé sá að vísbendingar séu um að umsvif í hagkerfinu hafi aukist í desember síðastliðnum.

Þetta ku vera ein af síðustu aðgerðum Ben Bernanke, sem hefur setið í stóli seðlabankastjóra síðan 1. febrúar árið 2006. Á laugardag, þ.e. 1. febrúar næstkomandi, tekur Janet Yellen við starfi hans.