Bandarísk flugyfirvöld hafa skipað flugfélögum að hætta notkun Boeing 787 Dreamliner flugvéla eftir röð atvika sem komið hafa upp í vélunum á undanförnum vikum. Vélarnar hafa þegar verið kyrrsettar í Síle, Japan, Póllandi og Indlandi.

Helstu fjölmiðlar heims fjalla um ákvörðun flugyfirvalda í dag en Boeing segir vélarnar traustar. Unnið verði að lausn mála með yfirvöldum en samkvæmt heimildum Wall Street Journal er líklegt að Dreamliner vélarnar fari í loftið á ný innan fárra daga eða vikna.Meðal atvika undanfarnar vikur í Dreamliner vélum er bensínleki, brot í rúðu, vandamál með bremsu og rafmagnsbruni. Mestar áhyggjur hafa menn þó af rafhlöðum í vélunum sem hafa skapað vandamál.

Þetta er í fyrsta sinn í fjóra áratugi sem bandarísk flugyfirvöld grípa til svo umfangsmikils banns.