Fólki án atvinnu sem þiggur atvinnuleysisbætur fækkaði nokkuð á milli vikna í Bandaríkjunum, samkvæmt upplýsingum sem bandaríska vinnumálastofnunin birti i dag. Atvinnuleysistölurnar benda til að bótaþegar hafi ekki verið færri síðan í mars árið 2008. Atvinnuleysi í Bandaríkjunum mælist 8,2%

Reuters-fréttastofan segir tölurnar hafa komið á óvart og þær kveikja þá von í brjóstum manna vestanhafs að draga sé úr atvinnuleysi og að vinnumarkaðurinn sé að taka við sér á ný. Bent er á það í umfjöllun fréttastofunnar af þróun vinnumarkaðarins vestra, að á sama tíma og jákvæðar tölur um stöðuna eru birtar hafi dregið úr nýráðningum fyrirtækja á öðrum fjórðungi ársins í því skyni að brynja sig fyrir hugsanlegum skattahækkunum hins opinbera.

Fréttastofan segir ekki útilokað að breytingin nú skýrist af því að bílaframleiðendur, sem alla jafna hafa lokað í júlí ár hvert höfðu vélarnar í gangi í fyrstu viku mánaðarins til að anna eftirspurn eftir nýjum bílum.