Hagnaður Marels á fyrri hluta ársins nam alls 3,9 milljón evra borið saman við 4,3 milljóna evra hagnað á sama tíma í fyrra. Sala fyrstu sex mánuði ársins 2005 nam 63,8 milljónum evra (ISK 5,1 milljarður) sem er um 13,3% aukning frá fyrra ári.

Rekstrarhagnaður EBIT á fyrrihluta árins 2005 var 6,3 milljónir evra sem er 9,9% af sölutekjum. Hagnaður tímabilsins var 3,9 milljónir samanborið við 4,3 milljónir árið 2004.

Rekstrarhagnaður EBIT annars ársfjórðungs var 3,3 milljónir (ISK 262 milljónir) samanborið við 4,1 milljón (ISK 355 milljónir) í fyrra. Rekstrarhagnaður EBIT annars ársfjórðungs 2005 er sá næstmesti í sögu félagsins.

Hagnaður á hlut var 1,67 evru cent samanborið við 1,83 evru cent á fyrra ári.

Verkefnastaða í lok júní 2005 var um 21 milljón evra samanborið við rúmlega 18 milljónir evra í lok júní 2004.

Reikningsskilaaðferðum hefur nú verið breytt til samræmis við alþjóðlega reikningsskilastaðla (e. IFRS, International Financial Reporting Standards). Samanburðartölum frá fyrra ári hefur verið breytt til samræmis.

Árshlutareikningur Marel samstæðunnar fyrir fyrri hluta ársins 2005 var samþykktur á stjórnarfundi Marel hf í dag, 9. ágúst 2005.

Samstæða Marel samanstendur af 16 fyrirtækjum með starfsemi í 11 löndum. Það nýjasta, Marel Russland, hóf starfsemi á öðrum ársfjórðungi 2005.

Eftirfarandi eru helstu niðurstöður úr samstæðureikningsskilum Marel:

Sala á fyrstu sex mánuðum ársins 2005 nam alls 63,8 milljónum evra (ISK 5,1 milljarður) samanborið við 56,4 milljónir (ISK 4,9 milljarðar) árið áður. Salan hefur því aukist um 13,3%. Miðað við fast gengi á milli ára hefur salan aukist um 15%.

Framlegð af vörusölu á tímabilinu var 22,1 milljón evra eða 34,6% af sölu samanborið við 21,0 milljón eða 37,3% af sölu á sama tíma árið áður. Þessi hlutfallslega lækkun var fyrirsjáanleg og skýrist einkum af óhagstæðri gengisþróun. Tekjur í íslenskum krónum voru um 2% af heildarsölu samstæðunnar, en útgjöld voru um 22%, einkum laun starfsmanna hér á landi. Krónan hefur styrkst um tæp 9% gagnvart evru frá meðaltali fyrstu sex mánaða ársins 2004 til sama tíma 2005.

Rekstrargjöld önnur en kostnaðarverð seldra vara námu 16,2 milljónum evra og voru 25,5% af sölu samanborið við 26,6% árið áður. Sölu- og markaðskostnaður var 7,8 milljónir evra sem er um 7,9% hærra en á fyrra ári. Gjaldfærður þróunarkostnaður, þar með taldar afskriftir af vöruþróunarkostnaði fyrri ára, var um 3,3 milljónir evra, sem er hækkun um 6,5%. Bæði í sölu- og markaðsstarfi og í vöruþróun hefur megin áhersla verið á aukna framleiðni og aukin samlegðaráhrif með meiri samþættingu innan samstæðunnar. Stjórnunarkostnaður var 5,1 milljón evra samanborið við 4,6 milljónir árið áður eða hækkun um 10,7%.

Rekstrarhagnaður var 6,3 milljón evra eða 9,9% af sölu samanborið við 11,3% árið 2004.

Fjármagnskostnaður umfram fjármunatekjur nam 1,3 milljónum evrum samanborið við 0,8 milljónir evra í fyrra. Hækkunina má einkum rekja til gengistaps, sem varð á 1. ársfjóðungi 2005.

Hagnaður af rekstri Marel samstæðunnar á fyrri hluta ársins 2005 nam 3,9 milljónum evra (ISK 314 milljónir) samanborið við 4,3 milljónir evra (ISK 378 milljónir) árið áður. Gengisþróun hefur reynst félaginu óhagstæð, einkum gengi íslensku krónunnar og gengiskrossinn á milli evru og Bandaríkjadollars. Þrátt fyrir þessa óhagstæðu þróun hefur náðst viðunandi árangur, sem má rekja til hagræðingaaðgerða og aukinna samlegðaráhrifa í samstæðunni.

Heildareignir samstæðunnar í lok júní 2005 voru bókfærðar á 104,8 milljónir evra og hafa þær aukist um 9,3 milljónir eða 9,7% frá síðustu áramótum. Þá hækkun má að mestu rekja til aukningar í birgðum og viðskiptakröfum. Birgðir hækka um 2,4 milljónir evra eða um 11%. Viðskiptakröfur hækka um 4 milljónir evra eða um 25% frá síðustu áramótum. Þessi aukning á birgðum og viðskiptakröfum skýrist annars vegar af ágætri veltuaukningu og að mikið var af afhendingum um og eftir lok ársfjórðungsins.

Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum á fyrstu sex mánuðum árins 2005 fyrir 1,6 milljónir evra, samanborið við 0,7 milljónir á sama tíma í fyrra. Rekja má hluta fjárfestinga á tímabilinu til þess að áætlaðar fjárfestingar ársins 2004 færðust fram á þetta ár.

Handbært fé frá rekstri nam 2,7 milljónum evra samanborið við 6,1 milljón árið áður. Munar þar mest um aukna fjárbindingu í birgðum og viðskiptakröfum, en á móti kemur að hluta aukning í viðskiptaskuldum. Í lok 2. ársfjórðungs 2005 var handbært fé 4,0 milljónir evra samanborið við 6,3 milljónir í lok júní 2004.

Starfsmenn Marel samstæðunnar voru að jafnaði 851 á fyrri hluta ársins 2005 samanborið við 813 á sama tíma árið áður. Af þessum 851 voru 322 á Íslandi og 529 erlendis í 14 fyrirtækjum í 10 löndum.

Sala Marel félaganna á fyrri hluta ársins 2005 var 36,8 milljónir evra og jókst um 12,4% á milli ára. Rekstrarhagnaður (EBIT) Marel félaganna á tímabilinu var 5,4 milljónir og minnkaði um 5,6% á milli ára. Rétt er að hafa í huga við þennan samanburð að afkoma fyrstu 6 mánaða ársins 2004 var sú besta í sögu Marel. Rekstur félaganna gekk því vel á tímabilinu janúar til júní 2005 þrátt fyrir að rekstrarskilyrði fyrirtækjanna versnuðu á milli ára vegna styrkingar íslensku krónunnar og umtalsverðra kostnaðarhækkana á Íslandi. Þessi óhagstæða þróun samfara harðri samkeppni á mörkuðum skapar verulegan þrýsting á framlegð fyrirtækisins. Til þess að mæta því hefur fyrirtækið gripið til fjölþættra hagræðingaraðgerða með stöðlun á framleiðsluvörum, skipulagsbreytingum og flutt hluta af innkaupum og undirverktöku til Asíu og A-Evrópu.

Carnitech

Velta Carnitech var 27,1 milljón evra á fyrri hluta ársins 2005 og jókst um 14,5%. Rekstrarhagnaður (EBIT) var 0,9 milljónir evra og jókst um 36% á milli ára. Á öðrum ársfjórðungi var EBIT hjá Carnitech 6,4% af sölu . Nýjar vörulínur fyrir laxa- og kjötiðnað fá góð viðbrögð hjá viðskiptavinum, en framleiðslukostnaður þeirra er enn hár sem veldur lágri framlegð. Gert er ráð fyrir að enn sé nokkur tími í að afkoma Carnitech verði viðunandi.

Hagræðingaraðgerðir

Á undanförnum misserum hefur náðst góður árangur í hagræðingaraðgerðum fyrirtækisins, sem skilað hefur bættri afkomu þrátt fyrir að ytri rekstrarskilyrði hafi tímabundið versnað. Enn eru taldir umtalsverðir möguleikar til hagræðingar á flestum sviðum í rekstri félagsins. Helstu aðgerðir sem ákveðnar hafa verið eru:

· Ákveðið hefur verið að sameina rekstur CP-Food/Geba við Carnitech. Við það verður til öflug eining innan Carnitech sem sérhæfð er í tækjabúnaði fyrir laxavinnslu og verður stærsti söluaðili á þeim búnaði í heiminum. Sameiningin mun eiga sér stað 1. janúar næstkomandi. Með þessari breytingu næst betri nýting á föstum kostnaði og bætt þjónusta við viðskiptavini fyrirtækisins.

· Ákveðið hefur verið að sameina Marel Deutschland og Marel TVM undir merkjum Marel Deutschland. Við það verður til öflugt sölu- og þjónustufyrirtæki í Þýskalandi sem leiðir til aukinnar hagkvæmni og bættrar þjónustu við viðskiptavini félagsins.

· Þann 1. október nk. tekur til starfa nýtt dótturfélag í Slóvakíu Carnitech/Marel s.r.o. sem framleiða mun íhluti og vörur bæði fyrir Marel og Carnitech. Rekstarumhverfi í Slóvakíu er mjög hagkvæmt fyrir iðnfyrirtæki. Landið er innan Evrópusambandsins, með langa hefð fyrir iðnaðarframleiðslu, menntunarstig mjög gott og kostnaður hagkvæmur.

Frekari hagræðingaraðgerðir verða tilkynntar á næstu mánuðum.

Horfur

Verkefnastaða samstæðunnar í lok annars ársfjórðungs 2005 nam alls 21 milljón evra samanborið við rúmar 18 milljónir í lok júní 2004. Öflug vöruþróun og uppbygging markaðskerfis á undanförnum árum hefur skilað fyrirtækinu sterkri samkeppnisstöðu. Horfur eru því á áframhaldandi veltuaukningu.

Gengisþróun gjaldmiðla hefur aftur á móti verið félaginu mjög óhagstæð að undanförnu. Styrking íslensku krónunnar veldur hækkun á íslenskum kostnaði félagsins og veiking dollars gagnvart evru veldur lækkun á tekjum. Framvirkir gjaldeyrissamningar hafa þó dregið nokkuð úr afleiðingum gengisbreytinganna en áhrifa þeirra er nú að mestu hætt að gæta. Horfur til skemmri tíma eru því erfiðar og talið erfitt að hækka framlegðarstig félagsins á næstunni. Til lengri tíma eru horfur góðar með leiðréttingu á gengi íslensku krónunnar, nýjum framleiðslueiningum í hagkvæmu rekstrarumhverfi, árangri af hagræðingaraðgerðum og bættum rekstri Carnitech þegar nýjar vörulínur hafa náð að festa sig í sessi.