Talsvert hefur dregið úr veltu á gjaldeyrismarkaði og flökti á gengi krónunnar upp á síðkastið, segir greiningardeild Landsbankans.

?Þann 21. febrúar síðastliðinn gaf Fitch Ratings út skýrslu þar sem langtímahorfum á lánshæfismati ríkissjóðs var breytt í neikvæðar, og varð það til þess að krónan veiktist umtalsvert á mjög stuttum tíma. Í kjölfar skýrslu Fitch gáfu ýmis önnur fyrirtæki og stofnanir út skýrslur og í sumum þeirra var dregin upp nokkuð dökk mynd af horfum efnahagsmála hér á landi. Á meðan á þessu stóð var krónan í miklum veikingarfasa og veltan á gjaldeyrismarkaði jókst mikið, eins og sést á myndinni hér að neðan," segir greiningardeildin.

Hún segir að síðan skýrsla Fitch kom út og fram í miðjan júní, hækkaði gengisvísitalan um hátt í 18% og dagleg velta á gjaldeyrismarkaði var að meðaltali tæpir 25 milljarðar króna sem er mjög mikið í sögulegu samhengi.

?Flöktið á gengi krónunnar jókst einnig gífurlega á þessu tímabili. Ró virðist nú vera að færast yfir gjaldeyrismarkaðinn á nýjan leik. Á síðustu vikum hefur dregið talsvert úr daglegri veltu og flökt á gengi krónunnar er á hraðri niðurleið. Það sem af er þessa mánaðar hefur dagleg velta á gjaldeyrismarkaði verið tæpir 11 milljarðar króna og gengisvísitalan hefur lækkað um hátt í 3%," segir greiningardeildin.