Ef Schengen samstarfið líður undir lok gæti það kostað Schengen ríkin um það bil 1,4 billjón evra, eða um 200 þúsund milljarða króna á næsta áratug í töpuðum hagvexti og hækkuðu innflutningsverði. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem gerð var af Bertelsmann stofnunninni í Þýskalandi.

Rannsóknin segir að í versta falli gæti eftirlit á landamærum innan Evrópusambandsins hækkað innflutningsverð um þrjú prósent. Kostnaðurinn við það fyrir Þýskaland myndi nema um 235 milljörðum evra á árunum 2016 til 2025. Fyrir Frakkland yrði sami kostnaður á sama tímabili um 244 milljarðar evra. Samtals yrði kostnaðurinn fyrir öll ríkin um 1,4 billjón evra. Í besta falli reiknar stofnunin út að sami kostnaðurinn yrði 470 milljarðar evra fyrir öll ríkin.

Forseti Bertelsmann stofnunarinnar, Aart De Geus, segir að ef landamæraeftirlit yrðu tekin upp í álfunni þá mun veikur hagvöxtur lenda undir enn meiri þrýstingi.

Schengen samstarfið komst á fyrir um 30 árum en hefur átt í erfileikum undanfarið vegna mikils fjölda flóttamanna. Rætt hefur verið að endurvekja landamæraeftirlit til að stemma stigu við komu flóttamanna til ríkjanna innan samstarfsins.