Fyrsta þotan frá breska flugfélaginu easyJet lenti á Keflavíkurflugvelli klukkan 12 mínútur í níu í morgun. Vélin kom frá Manchester í Bretlandi. Sjötíu prósent farþeganna sem fóru með vélinni til baka til Manchester voru Íslendingar.

Flugfélagið mun fljúga tvisvar í viku á milli Manchester og Keflavíkur frá og með deginum í dag á fimmtudögum og sunnudögum en félagið hefur frá því í mars í fyrra flogið á milli London og Keflavíkur.

Fram kemur í tilkynningu að Hafnfirðingurinn Ragnar Jóhannesson var fyrsti farþeginn til að bóka sig inn í flugið í dag og hann sá því um að klippa á borðann með aðstoð Hlyns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Ragnar er um áttrætt og hugðist hann, ásamt eiginkonu sinni, ferðast áfram til Alicante frá Manchester. Einnig var farþegum í fyrsta fluginu boðið upp á köku í boði  Isavia, rekstraraðila Keflavíkurflugvallar. Fyrstu kökusneiðarnar komu í hlut japanskrar fjögurra manna fjölskyldu sem dvalið hafði hér á landi í fríi í fjóra daga í skólafríi barnanna. En fjölskyldan býr í Sviss.

Þá segir í tilkynningunni að lægstu fargjöldin í flugi á vegum easyJet er undir 30 þúsund krónum báðar leiðir með sköttum og gjöldum.