Lággjaldaflugfélagið easyJet hefur tilkynnt að það muni fljúga beint frá Gatwick í London til Akureyrar næsta vetur. Fyrsta flugferðin verður 31. október og flogið verður tvisvar í viku, á þriðjudögum og laugardögum, út mars 2024.

Flugfélagið er í samstarfi við ferðaskrifstofuna easyjet Holidays og því verður einnig boðið upp á pakkaferðir til Norðurlands í tengslum við flugferðirnar.

„Akureyri er höfuðstaður Norðurlands, sem býður upp á frábæra möguleika fyrir ferðamenn og er stutt frá aðdráttaröflum náttúru, menningar og sögu. Gestir geta notið hvalaskoðunar, farið í gönguferðir, fylgst með Norðurljósum eða farið í böð á sama tíma og þau njóta útsýnisins sem svæðið býður upp á,“ segir í tilkynningu frá easyJet.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla, fagnar ákvörðun breska flugfélagsins og segir það mikið gleðiefni að easyJet hafi ákveðið að hefja flug til Akureyrar í vetur.

„Við tökum vel á móti farþegum þeirra. Það er sérstaklega gaman að fá þessa auknu umferð nú þegar styttist í að viðbygging við flugstöðina verði tekin í notkun og öllum framkvæmdum á vellinum síðan lokið vorið 2024,“ segir Sigrún.

Markaðsstofa Norðurlands hefur verið í samtali við easyJet frá árinu 2014. Flugfélagið hafði áætlað að fljúga til Akureyrar en ýmsir þættir höfðu áhrif á þau áform. Má þar nefna brotthvarf Breta úr ESB, heimsfaraldur Covid og uppbyggingu Akureyrarflugvallar sem stærstu áhrifaþættina.