Breska lággjaldaflugfélagið easyJet greindi frá því í gær að félagið hefur ráðið fjárfestingabankann Goldman Sachs til að koma í veg fyrir hugsanlega óvinveitta yfirtöku FL Group.

Í tilkynningu easyJet staðfestir félagið ráðninguna, en bætir við að Credit Suisse, sem sá um skráningu félagsins á hlutabréfamarkað í London, mun áfram sinna miðlun fyrir félagið.

FL Group er næst stærsti hluthafinn í easyJet, með 16,2%, á eftir stofnanda félagsins, Stelios Haji-Ioannou, sem á 16,5% hlut. Fjölskylda Stelios ræður yfir 40,5% eignarhlut. Stelios hefur gefið til kynna að hann og fjölskylda hans hafi ekki áhuga á því að selja eignarhluti sína.

Fjármálasérfræðingar í London velta því fyrir sér hvort að yfirtökutilboðs sé að vænta frá FL Group, sem ásamt fleiri fjárfestum hefur náð yfirráðum í Íslandsbanka. FL Group keypti fyrst í easyJet á 120 pens á hlut og lokagengi bréfa félagins í gær var rétt undir 380 pens á hlut.

Áhugi FL Group á easyJet hefur ýtt undir hækkun á gengi bréfanna, segja sérfræðingar, og spá því að Stelios og fjölskylda selji kannski á bilinu 500-550 pens á hlut. Einnig benda þeir á að ef tilboð berst ekki í easyJet frá FL Group, þá lendi FL Group í þeirri erfiðu stöðu að með því að selja bréfin sín þá hríðfalli gengið.

Nýlegt 44 milljarða króna hlutabréfaútboð FL Group, ásamt heimildum til að auka hlutafé frekar með samþykki stjórnar og yfirráð í Íslandsbanka, hefur aukið fjárhagslegt bolmagn FL Group verulega og það gæti verið nóg til þess að gera tilraun til að taka yfir easyJet.