Fjárfestingarsjóðurinn Eaton Vance Management hefur selt tæplega helming bréfa sinna í Vátryggingafélagi Íslands. Söluverðið nam tæplega 1,3 milljörðum miðað við gengi bréfanna á þeim degi sem salan fór fram.

Fyrir viðskiptin átti sjóðurinn rúmlega 201 milljón hluta en fjárfestingarsjóðurinn seldi 100 milljón hluta þann 9. nóvember á síðasta ári.

Eaton Vance er því komin niður fyrir 5% markið að því er kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar. Eftirstandandi eignarhlutur fjárfestingarsjóðsins í tryggingafélaginu nemur því 4,56% af útistandi hlutum.

Ekki er greint frá kaupanda bréfanna í tilkynningunni en þann 10. nóvember síðasta árs greindi Viðskiptablaðið frá því að annar erlendur sjóður, Lansdowne Partners hefði keypt um 140 milljónir hluta í VÍS.