Afþreyingar- og fjölmiðlafyrirtækið 365 [ 365 ] birti uppgjör sitt fyrir fjórða fjórðung í dag, líkt og Vb.is hefur áður greint frá. Tekjur fjórðungsins námu 4.051 milljónir króna en meðalspá greiningardeildanna gerði ráð fyrir 3.813 milljónum króna í tekjur. EBITDA fjórðungsins nam 404 milljónum króna en meðalspáin hljóðaði upp á 449 milljónir króna. Stjórnendur eru ánægðir, segir í fréttatilkynningu, með þann árangur sem náðist á síðasta ári. Niðurstöður rekstrarins má sjá í töflu hér til hliðar. Eftir slakan rekstrarárangur á árinu 2006 var rekstur félagsins endurskipulagður þar sem lögð var áhersla á að styrkja helstu rekstrareiningar fjölmiðlahluta félagsins sem eru Fréttablaðið, Stöð 2, Bylgjan og Vísir.

Samhliða þessu voru aðrar rekstrareiningar ýmist lagðar niður eða seldar, jafnframt því sem lögð var áhersla á að lækka kostnað. Þessar aðgerðir hafa skilað sér í mjög bættri framlegð, segir í fréttatilkynningunni.

Með niðurfærslu á eignarhlut í Wyndeham hefur óvissu verið eytt og félagið orðið skýr valkostur, segir í fréttatilkynningunni, fyrir fjárfesta á sviði fjölmiðlunar og afþreyingar.

Á árinu voru stigin mikilvæg skref í að styrkja fjárhagsstöðu félagsins með sölu á eignum og niðurgreiðslu skulda, segir í fréttatilkynningunni.