María E. Ingvadóttir situr í stjórn Íslandsbanka og hefur áður setið í stjórn lítill fyrirtækja. Hún er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.

Finnst þér skipta máli að hafa blandaðar stjórnir? „Mér finnst fyrst og fremst skipta máli að í stjórnum sé hæft fólk og þá fólk sem er tilbúið til að kynna sér vel bakgrunn og rekstur viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar. Fólk er gjarnan valið ef talið er að það hafi innsýn í þann rekstur eða rekstrarumhverfi sem fyrirtækið starfar í, en einnig er valið fólk sem ætlað er að koma með nýja sýn og öðruvísi reynslu og fá þannig önnur viðhorf inn í fyrirtækið. Konur eru jafn hæfar og karlar, það ætti fyrst og fremst að skoða hæfni einstaklingsins og eftir hverju er verið að leita hverju sinni. Ég tel það vafasamt að velja konu í stjórn til að uppfylla einhvern kvóta. Mér finnst ekkert óeðlilegt við það, þó að það raðist í stjórnir eingöngu konur eða karlar, það fer eftir eðli fyrirtækisins. Ef meginreglan væri hins vegar sú að stjórnir væru almennt eingöngu skipaðar körlum, þá væri það jafn brogað og að stjórnir væru almennt eingöngu skipaðar konum. Ég hef miklar efasemdir um réttmæti kvótafyrirkomulagsins, ég myndi frekar vilja upplýsa eigendur og forráðamenn fyrirtækja og stofnana betur um hvernig góðar stjórnir eru samansettar og það er gott tækifæri núna þegar verið er að skerpa á hlutverki stjórna og ábyrgð stjórnarmanna.“

Rætt er við Maríu ásamt fleiri konum í stjórnum fyrirtækja í Áramótum, áramótatímariti Viðskiptablaðsins sem kom út á föstudaginn.