Seðlabankinn hefur nú birt sérritið Varúðarreglur eftir fjármagnshöft; Skýrslu Seðlabankans til efnahags- og viðskiptaráðherra.

Þar leggur Seðlabankinn meðal annars til að til þess að draga úr erlendum innlánum verði dregið verulega úr möguleikum innlendra fjármálafyrirtækja á að safna innstæðum í erlendum gjaldmiðlum frá erlendum aðilum. Þar er meðal annars fjallað um að takmarka verulega leyfi innlendra fjármálafyrirtækja til slíkrar innlánssöfnunar.

Þetta er aðeins einn fimm liða í tillögum Seðlabankans að varúðarreglum er lúta að fjármagnshreyfingum. Í fimmta lið er lagt til að tímabundnar takmarkanir verða settar á aukningu erlendra eigna lífeyrissjóða. Til að takmarka mögulegt útstreymi fjármagns vegna aðlögunar eignasafns þeirra er því lagt til að reglur verði settar sem takmarki þá fjárhæð sem lífeyrissjóðirnir geta ráðstafað til fjárfestingar í útlöndum yfir ákveðið tímabil.

Skýrslan er liður í áætlun um losun gjaldeyrishafta sem birt var í mars árið 2011. Þar var boðað að áður en fjármagnshöft yrðu losuð gagnvart innlendum aðilum þyrfti að setja varúðarreglur sem miðuðu að því að verja fjármálakerfið gegn áhættu sem fylgt gæti óheftum fjármagnshreyfingum.

Skýrsluna má nálgast hér . Í framhaldi af þessari útgáfu segir í tilkynningu frá Seðlabankanum að við taki vinna af hálfu viðeigandi ráðuneyta, Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins við að móta reglur af þessu tagi í endanlegu formi.