„Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festi hf. hefur sagt starfi sínu lausu frá 1. ágúst næstkomandi,“ sagði í tilkynningu, sem Festi sendi Kauphöllinni á fimmtudaginn í síðustu viku. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var Eggerti Þór hins vegar sagt upp störfum þennan dag. Á fundi fimmtudaginn, 2. júní, tilkynnti Guðjón Reynisson, stjórnarformaður Festi, Eggerti Þór að stjórnin hefði ákveðið að leysa hann frá störfum.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er ólga innan hluthafahóps Festi vegna málsins en þorri 20 stærstu hluthafanna frétti fyrst af málinu þegar tilkynningin var send til Kauphallarinnar og fjölmiðlar birtu fréttir upp úr henni. Af 20 stærstu hluthöfum Festi eru 13 lífeyrissjóðir, sem eiga samtals um 70% af hlutafé félagsins.

Ólgan innan hluthafahópsins snýr ekki síst að því rekstur Festi hefur gengið vel og að þrátt fyrir miklar lækkanir í Kauphöllinni er Festi eitt þeirra félaga sem hafa haldið ágætlega sjó. Sem dæmi hefur Úrvalsvísitalan (OMXI10) lækkað um 21% á árinu en Festi um 5%.