Að sögn Egils Jóhannssonar, forstjóra Brimborgar, ríkir bjartsýni hjá þeim fyrir nýjafið ár.

„Við erum mjög bjartir fyrir þetta ár þar sem allar grunnforsendur í rekstrinum er í mjög fínu lagi. Við fórum mjög snemma í að laga kostnaðarstrúktur fyrirtækisins að nýjum raunveruleika og má rekja þær aðgerðir allt aftur til mars 2008 þegar bílamarkaðurinn tók að dala hressilega og um leið var skipulag  Brimborgar mun heilbrigðara en margra okkar keppinauta hvað varðar einfaldleika og áherslur á kjarnastarfsemi."

Að sögn Egils er félagið rekið á einni kennitölu og algjör og einbeitt áhersla á bílgreinina í samræmi við stefnu Brimborgar sem sett var árið 1991.

„Við höfum auðvitað eins og öll íslensk fyrirtæki fækkað mannskap verulega og ákkúrat í augnablikinu erum við heldur fleiri en umsvifin segja til um en við leggjum mikla áherslu á að halda okkar reynslumikla fólki til að halda uppi þjónustustigi og vera tilbúin þegar uppsveiflan kemur og bítum því á jaxlinn."

Egill segir að undanfarin þrjú ár hafi þeir lagt gríðarlega áherslu á uppbyggingu innviða Brimborgar og má þar nefna innleiðingu gæðastjórnunarkerfis sem þeir vilja jafnvel frekar kalla þekkingarstjórnunarkerfi og byggir það á alþjóðalega staðlinum ISO 9001:2000.

„Við höfum innleitt nýtt upplýsingatækikerfi í allar deildir fyrirtækisins sem er talið eitt það besta á heimsvísu og er þróað af íslensku fyrirtæki, Annata, en byggir um leið á grunnlausn frá Microsoft. Gríðarlega öflugt kerfi sem gefur okkur mikið samkeppnisforskot og það er til marks um gæði kerfisins og mátt gæðastjórnunarkerfis Brimborgar að innleiðing þessa nýa upplýsingatæknikerfis tók aðeins 6 mánuði, án hnökra og á áætlun."

Nánar verður rætt við Egil á vefnum um helgina.