Hagnaður ISNIC á síðasta ári nam rúmlega 62 milljónum króna samanborið við 55 milljóna hagnað árið áður. Á aðalfundi félagsins í lok janúar var samþykkt að greiða hluthöfum 40 milljónir í arð vegna reksturs síðasta árs.

Jens Pétur Jensen forstjóri Internet á Íslandi, ISNIC, sendi Viðskiptablaðinu ársreikning síðasta árs en honum hefur ekki verið skilað til Ársreikningaskrár. Rekstrartekjur námu alls 251 milljónum í fyrra, þar af námu tekjur af lénaskráningu um 227,5 milljónum. Rekstrargjöld voru um 136 milljónir.

Heildareignir námu um áramót alls 363 milljónum og eigið fé var tæpar 82 milljónir.

Rekur landslénið punktur is

Rekstur landslénsins hefur frá upphafi verið í höndum ISNIC. Árið 1995 var stofnað hlutafélag utan um reksturinn og meðal eigenda voru Ríkissjóður, Háskóli Íslands, ríkisbankarnir og Alþingi. Íslandssími keypti 93% í félaginu við einkavæðingu þess árið 2000, sem síðar rann inn í Teymi.

Jens Pétur er í dag stærsti eigandi félagsins með um 30% hlut. Íslandspóstur á um 19% hlutafjár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.