Stoðir, höfðustöðvar
Stoðir, höfðustöðvar
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Eftir söluna á 5,9% hlut sínum í danska drykkjarvöruframleiðandanum Royal Unibrew fyrr í mánuðinum á 5,3 milljarða króna, skulda Stoðir einungis 4 milljarða króna en á eignir upp á 34,2 milljarða króna. Eigið fé Stoða, sem áður hét FL Group, er því 30,2 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið er yfir 88%.

Í ársreikningi Stoða fyrir árið 2010 kemur fram að eignir félagsins voru 39,5 milljarðar króna um síðustu áramót en skuldir 9,2 milljarðar króna. Rekstrarhagnaður þess var 6,8 milljarðar króna á því ári. Hagnaðurinn af sölunni á Royal Unibrew rann beint í að greiða niður lán og því lækkuðu bæði eignir og skuldir félagsins um 5,3 milljarða króna við söluna. Gengi bréfa í Royal Unibrew hafði hækkað um 167% frá ársbyrjun 2010 og fram að þeim tíma sem Stoðir seldu bréfin.

Gott gengi Refresco

Nauðasamningar Stoða voru samþykktir 16. júní 2009. Samkvæmt þeim breyttu kröfuhafar félagsins gríðarlegum skuldum þess í hlutafé. Við það voru skuldir Stoða færðar niður um 225 milljarða króna. Skilanefnd Glitnis, skilanefnd Landsbankans og Arion banki eignuðust við það 66,2% eignarhlut í Stoðum. Um var að ræða stærstu einstöku skuldaniðurfellingu íslensks félags sem átt hafði sér stað utan bankanna.

Ein helsta eign Stoða er 99,1% hlutur í Tryggingamiðstöðinni (TM), sem til stendur að selja innan árs. Þá á félagið 40,3% hlut í hollenska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco, sem er stærsti framleiðandi sérmerktrar drykkjarvöru í Evrópu og velti yfir 200 milljörðum króna á árinu 2010. Hagnaður af Refresco var 1,5 milljarðar króna á því ári. Auk þess eiga Stoðir hlut í fasteignafélögunum Nordicom og Bayrock.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.