Hermann Guðmundsson forstjóri N1
Hermann Guðmundsson forstjóri N1
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
N1 tapaði 11,8 milljörðum króna á árinu 2010 og eigið fé félagsins var neikvætt um 5,2 milljarða króna í lok þess árs. Nánast allt tap félagsins kom fram á síðari hluta ársins þar sem tap þess var 191 milljón króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Öll viðskiptavild N1, 4,5 milljarðar króna, var afskrifuð í fyrra. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins. N1 var því tæknilega gjaldþrota um síðustu áramót.

Fyrr á þessu ári náðist samkomulag um að lánadrottnar félagsins taki það yfir. Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, segir þá endurskipulagningu einstaka í Íslandssögunni vegna þess að allir kröfuhafar stóðu jafnfætis óháð því hvort þeir hafi átt veð eða ekki. Að sögn Hermanns ríkir mikil ánægja með þessa niðurstöðu á meðal allra lánadrottnanna, líka bankanna sem gáfu eftir veð sín .

"Það er tímabundið ástand að við erum með mun sterkari efnahag en önnur félög sem við erum að keppa við,“ segir Hermann Guðmundsson. „Ég held að það sé augljóst að Skeljungur gæti verið með samskonar efnahag og við ef eigendur þess hefðu afhent hlutaféð lánadrottnum. Þeir hafa kosið að gera það ekki. Við værum ekki með þennan efnahag ef fyrri eigendur hefðu haldið öllu hlutafénu. Efnahagsreikningur Olís er tiltölulega veikur núna en þeir eiga væntanlega eftir að klára sína samninga og eignarhaldið þar hlýtur að breytast.“

Að sögn Hermanns er nauðsynlegt að fyrirtæki hafi súrefni til að vaxa og dafna eftir endurskipulagningu, en lifi ekki bara til að þjónusta skuldir. „Ég hef hvatt til þess opinberlega á fundum að svona sé staðið að endurskipulagningu íslensks atvinnulífs því öðruvísi verður ekki hægt að auka kaupmátt, bæta í launakjör starfsmanna og endurfjármagna í rekstri fyrirtækja. Það er ekki hægt að gera þetta ef félögin eru bara að þjónusta skuldir í 10-15 ár. *

Nánar er fjallað um um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.