Ýmislegt bendir til þess að spænski sparisjóðabankinn La Caixa selji hlut sinn í spænsk-argentíska olíufyrirtækinu Repsol, til rússneska olíurisans Lukoil.

Salan tengist yfirtöku Lukoil á 20% hlut í Repsoil, sem áður var í eigu fjárfestingafélagsins Sacyr Vallehermoso.

Ef kaupin ganga í gegn verður Lukoil stærsti eigandinn að Repsol.  Þannig myndu ítök rússkneska olíurisans á olíumörkuðum heimsins styrkjast mikið en Repsol er á top tíu lista yfir helstu olíufélög heims.

Iðnaðarráðherra Spánar, Miguel Sebastian, hefur lagst gegn kaupunum en hann lét þau orð falla að Repsol ætti áfram að vera spænskt og sjálfstætt. Að hans mati á ríkisstjórn Spánar að gera allt mögulegt til þess að koma í veg fyrir kaupin.

Jose Rodriguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar, segist virða rétt Repsol til þess að auka breidd hluthafa. Lukoil sé sjálfstætt fyrirtæki með fjölda hluhafa.

þess má geta að bandaríska olíufélagið Conoco Philips á um 20% hlut í Lukoil, svo félagið er ekki al-rússneskt, ef svo má segja.

BBC greindi frá þessu.