Miðað við að iðgjöld umfram lífeyrisgreiðslur verði um 40 milljarðar á árinu stefnir allt í að eignir lífeyrissjóðanna verði 2.800 milljarðar króna í lok árs. Þetta kemur fram í samtali við Gunnar Baldvinsson, formann stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða í Morgunblaðinu í dag. Hann áætlar að raunávöxtun sjóða verði á bilinu 4 til 6% á árinu.

Gunnar segir að verðbólgan sé versti óvinur lífeyrissjóðanna því skuldbindingar þeirra séu að fullu verðtryggðar en á móti séu aðeins um 60% eigna þeirra verðtryggðar. Hann segir að sjóðir sem starfi án ábyrgðar launagreiðenda, almennir lífeyrissjóðir, séu í jafnvægi að því leyti að eignirnar séu svipaðar og skuldbindingarnar. Öðru máli gegni hins vegar um opinberu sjóðina sem njóti ábyrgðar ríkis og sveitarfélaga. Hjá þeim séu skuldbindingarnar töluvert hærri en eignirnar.