*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 13. mars 2015 14:55

Eignir Kaupþings jukust um tæpa 22 milljarða

Eignir Kaupþings námu tæpum 800 milljörðum í árslok. Handbært fé nam 400 milljörðum króna.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Bókfært virði eigna Kaupþings í lok ársins 2014 nam 799,8 milljörðum króna og jókst um 21,7 milljarða eða um 2,8% á árinu. Því til viðbótar voru í árslok, 19,2 milljarðar króna geymdir á vörslureikning til að mæta umdeildum seint framkomnum forgangskröfum. Mælt í evrum jókst verðmæti eignasafnsins um 275 milljónir eða um 5,6% á árinu. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Hrein virðisbreyting eigna var jákvæð á tímabilinu og nam 56,2 milljörðum króna en neikvæð gengisáhrif vegna styrkingar krónunnar námu 5,0 milljörðum. Á árinu greiddi Kaupþing 2,8 milljarða króna inn á vörslureikning vegna umdeildra seint framkominna forgangskrafna og 1.250 milljónir til kröfuhafa vegna samþykktra forgangskrafna undir 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Þá námu greiddir skattar 14,5 milljörðum króna. Hreinar vaxtatekjur námu 7,3 milljörðum á árinu.

Handbært fé Kaupþings stóð í 401,7 milljarði króna við lok tímabilsins og lækkaði um 16,9 milljarða eða um 4,0%. Lækkun handbærs fjár á árinu skýrist m.a. af greiddum sköttum og neikvæðum áhrifum vegna styrkingar krónunnar. Mælt í evrum, lækkaði handbært fé um 38 milljónir eða um 1,4%. Heildareignir Kaupþings í erlendum myntum eru metnar á 641,8 milljarða króna en eignir í íslenskum krónum eru metnar á 158,0 milljarða.

Útistandandi kröfur lækka og samþykktar kröfur hækka

Heildarfjárhæð útistandandi krafna í kröfuskrá lækkaði um 53,7 milljarða á árinu og nam 2.825,6 milljörðum króna í árslok. Ástæður þessarar lækkunar má að mestu leyti rekja til úrlausna ágreiningsmála. Heildarfjárhæð samþykktra krafna í kröfuskrá hækkaði um 10,6 milljarða á árinu og nam 2.814,1 milljarði króna í árslok.

Heildarrekstrarkostnaður Kaupþings nam 5,0 milljörðum króna á árinu og lækkaði um 0,1 milljarð eða um 2,5% frá fyrra ári. Tæplega helmingur rekstrarkostnaðarins, eða 2,4 milljarðar króna er vegna aðkeyptrar erlendrar sérfræðiráðgjafar. Rekstrarkostnaður Kaupþings nam 0,6% af bókfærðu virði eigna á árinu samanborið við 0,7% árið 2013.

Stikkorð: Kaupþing