Eimskipafélag Íslands hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem félagið hafnar því með öllu að hafa gerst brotlegt við ákvæði samkeppnislaga.

Fram kom í kvöldfréttum RÚV í gær að Samkeppniseftirlitið hefði kært forstjóra og starfsmenn Eimskips og Samskipa til sérstaks saksóknara vegna gruns um ólöglegt samráð.

Í ljósi fréttaflutningsins segir Eimskip að félagið hafi tilkynnt þann 10. september 2013 að Samkeppniseftirlitið hefði hafið rannsókn á félaginu og kallað eftir gögnum. Félagið hafi ítrekað óskað eftir upplýsingum um hin meintu brot á samkeppnislögum og hafi af því tilefni kært ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins í tvígang til Áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Áfrýjunarnefndin felldi úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og lagði fyrir það að afhenda félaginu umbeðin gögn, sem félaginu bárust þann 8. október sl. Segir í tilkynningu félagsins að gögnin hefðu ekki varpað frekara ljósi á grundvöll málsins.

Eimskip kveðst ekki hafa kæruna undir höndum og geti því hvorki upplýst um efni hennar, né að hvaða einstaklingum hún beinist. Ljóst megi vera af umfjöllun RÚV að fjölmiðillinn sé með mun ítarlegri upplýsingar um rannsókn málsins en félagið sjálft.