Eimskip skilaði 2,1 milljarðs króna hagnaði á síðasta ári. Þetta er óbreytt niðurstaða á milli ára í krónum talið. Í evrum talið hefur hagnaðurinn aukist. Hann nam 13,1 milljón evra í fyrra samanborið við 12,2 milljónir árið 2010. Þar af nam hagnaður Eimskips á fjórða ársfjórðungi 100 milljónum króna sem samsvarar 600 þúsund evrum.

Fram kemur í uppgjöri Eimskips að rekstrarhagnaður (EBITDA) í fyrra hafi numið 7 milljörðum króna, jafnvirði 43,2 milljóna evra, á öllu síðasta ári. Vaxtaberandi skuldir námu 9,8 milljörðum króna í árslok og nam handbært fé 6,9 milljörðum króna.

Heildareignir skipaflutningafélagsins námu 45 milljörðum króna og var eiginfjárhlutfallið 62,3%.

Haft er eftir forstjóranum Gylfa Sigfússyni að jákvætt sé að sjá þessa rekstrarniðurstöðu þrátt fyrir erfitt rekstrarumhverfi. Enn sé þó á brattan að sækja.

Þá kemur fram í uppgjörinu að stefnt sé að skráningu félagsins á hlutabréfamarkað fyrir árslok.