Hagnaður Eimskips á öðrum ársfjórðungi nam 4,6 milljónum evra, andvirði um 700 milljóna króna, samanborið við ríflega tveggja millóna evra hagnað á sama tímabili í fyrra. Hagnaður á fyrri helmingi ársins nemur því 3,8 milljónum evra, en var 4,6 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Rekstrartekjur eru lítið breyttar milli ára. Voru 109 milljónir evra á öðrum fjórðungi í ár, en 108,1 milljónir á sama tíma í fyrra. Þær voru 213,2 milljónir evra á fyrri helmingi ársins í ár, en voru 213,4 milljónir á sama tíma árið 2013.

EBITDA hagnaður nam á öðrum ársfjórðungi í ár rúmum 11 milljónum evra, en var 9,8 milljónir í fyrra. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir einskiptisliðum er EBITDA hlutfallið 10,1% á öðrum ársfjórðungi, en var 9,1% á sama tímabili í fyrra. Áætluð EBITDA fyrir árið 2014 er óbreytt, á bilinu 37-41 milljón evra.

Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins var við lok tímabilsins 65,4%, en var 63,9% í ársbyrjun. Nettóskuldir fyrirtækisins námu 32 milljónum evra í lok annars ársfjórðungs.

Í tilkynningu kemur fram að flutningsmagn í áætlunarsiglingum á N-Atlantshafi hafi aukist um 7,1% frá öðrum ársfjórðungi árið 2013.

Þar er haft eftir Gylfa Sigfússyni, forstjóra fyrirtækisins, að rekstrarafkoma annars ársfjórðungs sé í samræmi við væntingar. EBITDA hafi aukist um 12,3% á milli ára og skýrist vöxturinn m.a. af auknu flutningsmagni og aukinni hagkvæmni í siglingakerfinu.

Hann segir jafnframt að ákveðið hafi verið að ganga frá samningum um að ljúka við smíði Bakkafoss, systurskips Lagarfoss, og að skipasmíðastöðin hafi boðið frekari afslátt af kaupverði skipsins, sem nemur 0,8 milljónum dollara. Er gert ráð fyrir afhendingu skipsins á fjórða ársfjórðungi 2015. Eftir afsláttinn mun umsamið kaupverð nema 18 milljónum dollara.