Eimskip hefur opnað fyrstu skrifstofu sína í Víetnam sem er jafnframt sjötta skrifstofan sem Eimskip opnar í Asíu á síðustu misserum. Skrifstofan er staðsett í Ho Chi Minh, (áður Saigon), stærstu borg Víetnam, með yfir níu milljónir íbúa. Eimskip býður upp á alhliða flutningsþjónustu til fyrirtækja á víetnömskum markaði. Meðal þjónustuþátta í boði má nefna umboðsþjónustu í skipaflutningum, innflutnings og útflutningsþjónustu, ásamt þjónustu á sviði hitastýrðra flutninga.

Gríðarlegur vöxtur er í flutningastarfsemi í Víetnam og hefur sjávarútvegurinn verið að margfalda umsvif sín þar á síðustu árum. Í dag er Víetnam eitt af stærstu fiskútflutningslöndum heims og er áætlað að vöxturinn verði 25-35% á hverju ári. Eimskip sér mikil tækifæri í að geta boðið upp á heildarlausnir í flutningum á sviði kæli- og frystivara á svæðinu.

Eimskip í Asíu hefur vaxið mjög hratt síðustu mánuði og einungis er mánuður frá því að Eimskip opnaði risavaxna kæli- og frystigeymslu í kínversku hafnarborginni Qingdao. Uppbygging Eimskip í Asíu er í fullum gangi og er hugað að frekari landvinningum í álfunni. Fyrir er Eimskip í Asíu með sex skrifstofur í Japan og Kína.

Framkvæmdastjóri Eimskips í Víetnam er Long – Tran Thanh og mun hann leiða frekari uppbyggingu og eflingu Eimskips í Víetnam. Long – Tran Thanh hefur áralanga og yfirgripsmikla reynslu af flutningastarfsemi í Víetnam. Starfsmenn á skrifstofu Eimskips í Víetnam eru sex talsins til að byrja með.