*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 9. júní 2021 18:14

Eimskip óskar eftir sátt við SKE

Samkeppniseftirlitið hefur fallist á að hefja viðræður við Eimskip um hvort hægt sé að ljúka máli félagsins með sátt.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Eimskip hf. hefur óskað eftir því við Samkeppniseftirlitið að hefja formlegar viðræður um sátt vegna meintra samkeppnislagabrota félagsins og Samskipa. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins hefur staðið yfir nú um árabil en megintímabilið sem var til rannsóknar spannar árin 2008-13. Félögin tvö hafa verið til rannsóknar vegna meints ólögmæts samráðs og sökum þess að þau hafi ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni gagnvart eftirlitinu með fullnægjandi hætti. 

Samkvæmt samkeppnislögum getur fyrirtæki lokið málum með sátt ef Samkeppniseftirlitið fellst á það. Í slíkri sátt getur falist að fyrirtæki viðurkenni að hafa gerst brotlegt við lög, fallist á að greiða sekt og grípi til aðgerða til að efla samkeppni.

„Eimskip hefur snúið sér til Samkeppniseftirlitsins og óskað eftir formlegum viðræðum um hvort unnt sé [...] að ljúka rannsókn eftirlitsins á brotum fyrirtækisins með sátt. Samkeppniseftirlitið fellst á að hefja viðræður við Eimskip um hvort forsendur séu til þess að ljúka rannsókn á brotum fyrirtækisins með sátt,“ segir í tilkynningu Eimskipa.