Eimskipafélag Íslands hefur hækkað um 9,5% í Kauphöll Íslands það sem af er degi. Félagið sendi frá sér afkomutilkynningu í gær þar sem fram kom að búast við að rekstrarhagnaði fyrir afskriftir (EBITDA) á bilinu 14 til 15,5 milljónir evra á fjórða ársfjórðungi samanborið við 11,2 milljónir evra hagnað á sama ársfjórðungi í fyrra.

Því býst félagið við að EBITDA rekstrarhagnaður ársins 2020 verði á bilinu 60,7 til 62,2 milljónir evra, samanborið við 60,5 milljónir evra árið 2019.

Félagið birti einnig EBITDA afkomuspá fyrir árið 2021 sem er á bilinu 68 til 77 milljónir evra. Rætist spáin verður það mesti rekstrarhagnaður Eimskips frá því að endurreist félag var skráð á markað árið 2012.

Þó er sá fyrirvari settur við tilkynninguna að afkoman í desember sem og á árinu 2021 sé háð nokkurri óvissu. „Þá má sérstaklega nefna að áhrif COVID-19 faraldursins á alþjóðahagkerfið eru áfram óljós fyrir komandi mánuði og eins er óvissa um áhrif BREXIT á flutninga," bendir Eimskip á.