Eimskipafélag Íslands hefur selt 50% eignarhlut sinn í norska skipafélaginu Euro Container Line („ECL“) til Wilson ASA.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskip.

Wilson og Eimskip hafa átt í samstarfi um rekstur ECL frá árinu 1999 og hefur félagið verið í jafnri eigu aðila.

Í tilkynningunni kemur fram að söluverð er 712 milljónir króna og bókfærður hagnaður vegna sölunnar er 491 milljón króna.

„Salan á ECL er hluti af yfirlýstri stefnu Eimskips að leggja áherslu á frekari uppbyggingu kjarnastarfsemi félagsins,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips í tilkynningunni.

„Starfsemi ECL tengist ekki siglingakerfi Eimskips og hefur salan því engin áhrif á þjónustu félagsins. Eimskip verður áfram með sterka stöðu í Noregi og á Norður-Atlantshafssvæðinu undir merkjum Eimskips, Eimskip-CTG, Faroe Ship og Containerships."