*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 15. október 2020 17:33

Eimskip talið undirverðlagt

Greiningarfyrirtæki telur hlutabréf Eimskips undiverðlögð og að vísbendingar séu um rekstrarbata. Umfjöllun Kveiks lækkaði verðmatið.

Alexander Giess
Hlutabréf Eimskipafélags Íslands voru skráð á markað fyrir um átta árum. Hæst hefur markaðsverð bréfanna verið 339 krónur í lok árs 2016.

Verðmatsgengi Jakobsson Capital á hlutabréfum Eimskips í kjölfar annars ársfjórðungs 2020 er 195 krónur fyrir hvert bréf og er félagið metið á ríflega 35 milljarða króna. Það er 35% hærra en markaðsverð hlutabréfa Eimskips eftir lokun markaða í gær en hvert bréf kostaði þá 144 krónur.

Verðmatið er um 43% hærra en markaðsverð bréfa Eimskips við lokun markaða 12. október síðastliðinn, þegar verðmatið var birt. Í íslenskum krónum hefur verðmat Jakobsson Capital hækkað um sex prósentustig frá síðasta mati. Hlutabréf Eimskips hækkuðu um 3,5% í viðskiptum dagsins og um fjögur prósentustig í gær en þau hafa lækkað um ríflega fimmtung það sem af er ári.

Í greiningunni kemur fram að vísbendingar séu um rekstrarbata hjá félaginu og að „áhrif mikilla hagræðingaraðgerða í rekstri Eimskips undanfarið ár eru farin að bera ávöxt“. Þó telur greinandi að heimsfaraldurinn hafi töluverð áhrif og gert er ráð fyrir einu lakasta rekstrarári félagsins í sögunni. Áætlaður rekstrarhagnaður Eimskips er 15,3 milljónir evra, andvirði 3.144 milljóna króna, á næsta ári en að meðaltali hefur hann verið 19,2 milljónir evra frá árinu 2012. Bent er á að óvissan í rekstri Eimskips sé mikil og að vermatsgengið kann að vera mjög næmt fyrir forsendubreytingum.

Fram kemur að umfjöllun Kveiks, um sölu Eimskips á tveimur skipum til félagsins GMS, hafi ekki áhrif á rekstur félagsins. Hún gæti samt sem áður haft áhrif á hlutabréfaverð og fjármögnun Eimskips. Til að mynda eru lífeyrissjóðir umsvifamiklir fjárfestar á innlendum markaði og þeir þurfa að uppfylla skyldur um samfélagslega ábyrgð í fjárfestingum sínum en lífeyrissjóðir eiga ríflega helmingshlut í Eimskipi. Því hefur greinandi ákveðið að hækka fjármögnunarkostnað Eimskips í mati sínu sem nú er 9% en var 8,8% áður. Hærri fjármögnunarkostnaður lækkar verðmatið um 8%.

Keyptu fjórðungshlut á genginu 220 krónur 

Fyrir um tveimur árum varð útgerðarfélagið Samherji stærsti hluthafi Eimskips með kaupum á fjórðungshlut í félaginu af The Yucaipa Company á ríflega 11 milljarða króna á genginu 220 krónur. Í mars á þessu ári hugðist Samherji gera öðrum hluthöfum Eimskips yfirtökutilboð í hlutbréf þeirra í kjölfar þess að eignarhlutur Samherja í Eimskipi fór umfram 30%.

Björgólfur Jóhannsson, þá starfandi forstjóri Samherja, sagði að „tilgangur Samherja með þessum auknu hlutafjárkaupum er fyrst og fremst að sýna þá trú sem Samherji hefur á rekstri Eimskips, þeim árangri sem náðst hefur að undanförnu og á eftir að koma betur í ljós á næstu misserum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.