Einar Sigurðsson hefur verið ráðinn forstjóri Mjólkursamsölunnar (MS) frá 1. maí næstkomandi.

Einar tekur við starfinu af Magnúsi Ólafssyni, sem að undanförnu hefur bæði gegnt störfum forstjóra MS og Auðhumlu Svf., móðurfélags MS.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá MS en þar kemur jafnframt fram að Magnús mun áfram starfa sem forstjóri Auðhumlu.

Þá kemur fram í tilkynningunni að undanfarin ár hefur staðið yfir mikil endurskipulagning hjá Mjólkursamsölunni, sem einkum hefur lotið að hagræðingu í rekstri og sérhæfingu mjólkursamlaganna sem flest eru nú rekin undir merkjum MS.

„Breytingarnar voru nauðsynlegar til þess að bæta rekstur fyrirtækisins og styrkja samkeppnisstöðu þess. Þessar aðgerðir hafa þegar bætt stöðu Mjólkursamsölunnar verulega,“ segir í tilkynningunni. 
 „Ég er ákaflega spenntur fyrir þessu starfi. Mjólkursamsalan er í hópi virtustu fyrirtækja á Íslandi, þekkt fyrir öfluga vöruþróun, afbragðsvörur og fyrirtaksþjónustu,“ segir Einar í tilkynningunni.

„Ég tel mig því vera að ganga í feikilega öflugt lið. Það hefur sennilega aldrei verið jafn mikilvægt og nú fyrir Íslendinga að halda vel á málum í eigin matvælaframleiðslu. Matvælaframleiðsla hér innanlands er einn af grundvallarþáttum samfélagsins við þær efnahagsaðstæður sem hér ríkja. Mjólkursamsalan er þar í fremstu röð.“

Einar Sigurðsson hefur undanfarin tvö og hálft ár verið forstjóri Árvakurs og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Capacent þar á undan.

Um 17 ára skeið var hann starfsmaður Flugleiða, fyrst sem blaðafulltrúi félagsins, þá aðstoðarmaður forstjóra og síðan framkvæmdastjóri stefnumótunar- og stjórnunarsviðs frá 1997 til 2005.

Einar er með mastersgráðu í stjórnmálafélagsfræði frá London School of Economics og BA gráðu í fjölmiðlafræði. Hann starfaði að námi loknu sem fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu, hljóðvarpi og sjónvarpi, og var fyrsti útvarpsstjóri Íslenska útvarpsfélagsins og leiddi þar uppbyggingu útvarpsstöðvarinnar Bylgjunnar.

Hann er kvæntur Kristínu Ingólfsdóttur og þau eiga tvær dætur.