Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði við blaðamenn eftir fundi með fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel í dag að þar hefði komið fram að Íslendingar myndu lenda í verulegum pólitískum vandræðum gagnvart ESB ef þeim dytti í hug að taka evruna upp einhliða.

„Og hvað eru pólitísk vandræði? Það eru vandræði í kringum EES-samninginn og Schengen samstarfið og fleira þar sem þeir gætu lagt steina í okkar götu," sagði hann.

Hann sagði enn fremur að vel mætti vera að sú krafa yrði gerð til Svartfjallalands - sem hefur tekið upp evruna einhliða - að þeir köstuðu henni frá sér og tækju upp annan gjaldmiðil, á meðan þeir væru að uppfylla skilyrði sem sett eru fyrir upptöku evrunnar.

„Ég er ekki viss um að þeim þyki það góð tíðindi í Svartfjallalandi," bætti hann við.

„Það eru bara ákveðnir skilmálar fyrir því að fá að taka þátt í þessu evrusamstarfi og menn geta ekkert fleytt rjómann ofan af því með einhliða ákvörðun," sagði Geir enn fremur.