„Einhver lak þessu í Financial Times og mér virðist sem sá aðili vilji skaða samningaferlið frekar en að liðka fyrir því,“ segir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra um þær ítarlegu upplýsingar sem birtust nýverið í breska viðskiptablaðinu Financial Times um viðræður íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF).

Þegar ráðherrann er spurður hvort hann gruni einhvern sérstakan í þessum efnum svarar hann: „Að sjálfsögðu ekki. En þegar alvarlegir lekar eru settir af stað vill sá hinn sami ná árangri. Ekki til að hjálpa ferlinu heldur til að veikja það. Þess vegna er þetta hið versta mál.“

Inntur eftir því hvort tilgangurinn geti ekki einfaldlega verið sá að upplýsa um stöðu mála svarar Björgvin: „Menn geta spurt sig að því en það er ekki svo að mínu mati. Það er verið að leka trúnaðargögnum. Það hefur áhrif og þegar menn eru í samningaviðræðum á ekki að gera svoleiðis. Þess vegna var þetta óheppilegt."

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .