Viðskiptaráð Íslands, Kauphöll Íslands og Samtök atvinnulífsins (SA) hafa gefið út leiðbeiningar um stjórnarhætti opinberra fyrirtækja.

Á vef SA kemur fram að markmið leiðbeininganna er margþætt en þeim er fyrst og fremst ætlað að auka gagnsæi í rekstri opinberra fyrirtækja og aðstoða hið opinbera og fyrirtæki í eigu þess að skapa traust um starfsemi sína.

Fulltrúa fjármálaráðherra var afhent fyrsta eintak leiðbeininganna í dag.   „Leiðbeiningarnar kveða á um hvernig hið opinbera eigi að haga aðkomu sinni að rekstri opinberra fyrirtækja og hver eigi að vera helstu verkefni og ábyrgðir stjórna og stjórnenda fyrirtækjanna,“ segir á vef SA.

Fram kemur í skýrslunni að ekki megi skilja framtak þetta sem staðfestingu á réttmæti eða hagkvæmni opinbers eignarhalds.

„Þvert á móti er ljóst að einkaframtakið er og verður drifkraftur framfara og þar með hagsældar,“ segir í inngangi skýrslunnar.

„Hið opinbera ætti því ávallt að stefna að því að hverfa af samkeppnismörkuðum til að viðhalda skilvirku og samkeppnishæfu markaðshagkerfi í þágu framfara og hagsældar. Sé opinbert eignarhald hins vegar nauðsynlegt þá ætti það ávallt að vera til eins skamms tíma og kostur er.“

Þá segir jafnframt að hvort sem opinbert eignarhald er til skemmri eða lengri tíma sé afar mikilvægt að opinber fyrirtæki tileinki sér heilbrigða og góða stjórnarhætti.

„Slíkt er ekki einungis til þess fallið að efla ábyrg og fagleg vinnubrögð heldur einnig til að gera fyrirtækin að áhugaverðari fjárfestingarkosti. Heilbrigðir stjórnarhættir geta því verið ein forsenda hagkvæmrar einkavæðingar,“ segir í skýrslunni.

Sjá nánar á vef SA.

Sjá skýrsluna í heild sinni. (pdf skjal)

Sjá einnig umfjöllun á vef Viðskiptaráðs.