Margir erlendir kennarar kenna nú við MBA-nám Háskólans í Reykjavík (HR) en námið hefur vaxið jafnt og þétt síðustu ár og notið mikilla vinsælda.

Þannig má sem dæmi nefna að nú eru fjórir kennarar frá IESE háskólanum í Barcelona, en MBA-námið þar er talið besta nám sinnar tegundar í heiminum samkvæmt nýrri úttekt The Economist.

Aðalsteinn Leifsson, forstöðumaður MBA-námsins í HR, segir mjög mikilvægt að fá kennara úr erlendum skólum til að kenna hér á landi en kennarar koma einnig frá skólum á borð við London Business School, Insead, Boston University, Richard Ivey School of Management, Rotman Business School auk þess sem kennari frá Harvard Business School kennir í náminu í fyrsta skipti í haust.

Aðspurður um hvað það sé sem laði erlenda fræðimenn til Íslands til að kenna, segir Aðalsteinn að HR þurfi að greiða vel fyrir það.

„En það eitt og sér er ekki nóg því þeir fá líka vel greitt annars staðar,“ segir Aðalsteinn.

„Við reynum að gera heimsóknina áhugaverða og höldum vel utan um þá kennara sem eru að koma. Við pössum að þetta sé ánægjuleg og uppbyggileg lífsreynsla fyrir þá en auk þess eru kennararnir mjög ánægðir með nemendurna sem eru bæði virkir og hafa af mikilli reynslu að miðla.“

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .