*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 17. febrúar 2006 09:39

Eiríkur fær 44 milljónir eftir að hann hættir hjá Dagsbrún

ekki starfslokasamningur segir Eiríkur

Ritstjórn

Í ársreikningi Dagsbrúnar kemur fram að laun til annarra stjórnenda en stjórnar félagsins, átta núverandi framkvæmdastjóra og fjögurra fyrrverandi framkvæmdastjóra, námu 131 milljónum króna á síðasta ári og kaup- og söluréttir til þeirra voru að nafnverði 51 milljónir króna. Þar kemur einnig fram að í árslok 2005 lét Eiríkur S. Jóhannsson af störfum sem forstjóri félagsins og mun hann fá greidd laun að fjárhæð 44 milljónir króna á árinu 2006 samkvæmt starfssamningi.

Þessi laun eru gjaldfærð í ársreikningnum. Að sögn Eiríks er hér um að ræða uppgjör á ráðningasamningi hans og tók Eiríkur fram að hér væri ekki um að ræða starfslokasamning við hann.

30. desember síðastliðinn var greint frá breytingum á yfirstjórn Dagsbrúnar þar sem sagt var frá því að Eiríkur léti af störfum sem forstjóri Dagsbrúnar en tæki um leið við starfi hjá Baugi Group. "Ég tók að mér að leiða það verkefni að setja saman undir eitt móðurfélag rekstur 365 miðla og Og Vodafone. Því verkefni er að mestu lokið og þar sem mér hafa boðist önnur spennandi verkefni tel ég rétt að aðrir leiði sókn Dagsbrúnar," sagði Eiríkur í tilkynningu félagsins af því tilefni.

Eiríkur S. Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Dagsbrúnar, var með 17,9 milljónir króna í laun á síðasta ári og á hlutabréf fyrir 23,1 milljónir að nafnverði í Dagsbrún. Eftirmaður hans, Gunnar Smári Egilsson, var með 31,4 milljónir króna í laun á síðasta ári eða 2,6 milljónir króna á mánuði. Hann á hlutabréf að nefnverði 29,4 milljónir í Dagsbrún og sölurétt á 19,8 milljónum.

Aðalfundur Dagsbrúnar verður haldin í dag.