Eiríkur Sigurðsson, stofnandi klukkubúðarinnar 10-11, hefur stefnt slitastjórn gamla Landsbankans vegna uppgjörs á skuldum tengdum afleiðusamningum og framvirkum samningum um hlutabréfakaup og því hvernig gengið var að tryggingum vegna samninganna.

Ekki hefur náðst í Eirík vegna málsins. Fyrirtaka í máli Eiríks gegn slitastjórninni er á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 22. ágúst næstkomandi. Ekki liggja fyrir nánari upplýsingar um hvaða hlutabréfakaup var að ræða. Eftir því sem þó verður komist var um nokkra samninga að ræða.

Eiríkur stofnaði eins og áður sagði verslunina 10-11 en seldi hana til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar árið 1998 fyrir rúmar 900 milljónir króna. Eftir söluna varð hann skattakóngur og einn af ríkustu mönnum landsins. Verslanir 10-11 urðu síðar hluti af Haga-samstæðunni. Lítið heyrðist af verslanarekstri Eiríks fyrr en hann opnaði matvöruverslunina Víði í Skeifunni fyrir rúmu ári.

Eiríkur kemur fyrir í Rannsóknarskýrslu Alþingis yfir 100 stærstu skuldara bankanna í lok árs 2007. Eiríkur var þar í 74. sæti og voru skuldir hans sagðar nema 62,9 milljónum evra, jafnvirði 5,7 milljarða króna.