Á morgun, 15. september, er liðið eitt ár frá því að einn af stærstu bönkum heims, bandaríski bankinn Lehman Brothers, varð gjaldþrota.

Bankinn hafði átt í nokkrum erfiðleikum síðustu vikur og mánuði fyrir gjaldþrotið en helgina 13. – 14. september sátu stjórnendur bankans, ásamt Henry Paulson, þáverandi fjármálaráðherra og Ben Bernanke, seðlabankastjóra, á krísufundum í þeirri von að bjarga bankanum.

Sunnudagskvöldið 14. september þótt nokkuð ljóst að bankanum yrði ekki bjargað og viðmælendur fjölmiðla vestanhafs vöruðu við því að markaðir myndu taka illa í þessar fréttir við opnun markaða daginn eftir. Það reyndist rétt enda lækkaði Dow Jones vísitalan um 4,4% þann dag, sem var mesta lækkunin frá því að hryðjuverkaárásir voru gerðar á New York og Washington þann 11. september 2001.

Um 24.000 manns störfuðu hjá Lehman í Bandaríkjunum og um 4.000 í Lundúnum. Gjaldþrotið var stærsta einstaka dauðsfall fjármálastofnunar frá því að lausafjárkreppan gerði vart við sig á fjármagnsmörkuðum, og eitt stærsta gjaldþrotið í sögu bandarísks viðskiptalífs.

Á vef BBC í dag má finna um 4 mínútna myndband þar sem farið er yfir helstu atburði þessa afdrífaríku daga. Myndbandið er þannig upp sett að birtar eru ljósmyndir, þá helst frá 15. september í fyrra, á meðan rifjaðar eru upp helstu útvarpsfréttir BBC frá þessari viku.

Myndbandið má sjá á vef BBC.