Engin gjöld voru oftekin vegna tollaflokkunar Tollstjórans á tónhlöðunni iPod nano, samkvæmt upplýsingum Tollstjóra. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði nýverið embættið af kröfu félagsins Skakkaturnsins ehf, um greiðslu hálfrar milljóna króna og vöxtum vegna rangrar tollaflokkunar á iPod nano.

Málið er nokkuð flókið en um tíma var tónhlaðan flokkuð sem útvarpstæki og bar gjöld í samræmi við það. Tollaflokkun tækisins var breytt árið 2011 og lækkaði þá verðið um þriðjung, þ.e. fór úr um 45 þúsund krónum í um 30 þúsund krónur.

Dómur féll í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur seint í nóvember. Það er liður í málaferlum Skakkaturns á hendur íslenska ríkinu til endurgreiðslu oftekinna gjalda vegna meintrar rangrar flokkunar á iPod Touch og iPod nano. Skakkiturn krefst þess að fá endurgreidda samtölu allra þeirra almennu tolla og vörugjalda sem greidd hafa verið af tækjunum. Málið tengt iPod Touch er enn fyrir dómi.

Skakkiturn ehf. á og rekur Apple VAD á Íslandi í upboði Apple Computer Inc. í Bandaríkjunum.