Ekki er á borðinu að hefja orkuvinnslu á vegum Suðurlinda ohf. en það hefur ekki verið útilokað af sveitarfélögunum sem að því standa. Að sögn Lúðvíks Geirssonar, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, er ekki ætlunin með stofnun Suðurlinda ohf. að hefja orkuvinnslu í nafni félagsins. „Um það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun enda ekki stofnað til félagsins á þeim nótum,“ sagði Lúðvík. Aðspurður sagðist Lúðvík ekki geta aftekið að félagið hafi eitthvað með nýtingu orkulinda að gera í framtíðinni en um það hefði ekki verið tekin nein ákvörðun á þessu stigi. Hann benti á að þegar félagið hefði verið stofnað hefði ekki verið búið að leggja fram orkulagafrumvarp iðnaðarráðherra sem er nú til afgreiðslu á Alþingi.

Suðurlindir ohf. var stofnað í desember síðastliðnum og samkvæmt samþykktum félagsins er tilgangur þess að standa vörð um sameiginlega hagsmuni sveitarfélaganna Grindavíkur, Hafnarfjarðar og Voga og íbúa þeirra varðandi náttúruauðlindir í landi sveitarfélaganna við Trölladyngju, Sandfell og Krýsuvík, m.a. mögulega nýtingu jarðvarma, eignar og nýtingarétt hvers sveitarfélags fyrir sig. Lúðvík benti á að staða sveitarfélaganna, sem standa að Suðurlindum væri mismunandi vegna þess að Hafnarfjörður á talsverðar auðlindir í sinni lögsögu. Vogar og Grindavík eiga hins vegar lítið af því landi sem hér um ræðir en hafa hins vegar talsverðan rétt þegar kemur að skipulagsmálum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .