Rekstur bandarísku húsgagnakeðjunnar Pier 1, sem Jákup Jacobsen, eigandi Rúmfatalagersins, á 9,9% hlut í, hefur verið í vanda að undanförnu eins og komið hefur fram í fjölmiðlum og er talið að veruleg þörf sé á viðsnúningi og nýrri stefnumörkun í félaginu.

Viðskiptablaðið greindi frá því í apríl að Jákúp hefði áhuga á að auka hlut sinn í fyrirtækinu eða að gera tilraun til yfirtöku. Í september var svo greint frá því að Jákúp hafi fengið aðgang að bókhaldi Pier 1, en formlegt tilboð hefur enn ekki enn borist.

Í viðtali við fréttaveituna AFX á föstudaginn segir Marvin Girouard, forstjóri Pier 1, að engin ný tíðindi séu af Pier 1 í viðleitni fyrirtækisins í að snúa rekstrinum í betra horf, og þar með að engin ný tíðindi séu af mögulegum kaupendum að fyrirtækinu.

Girouard ítrekaði að það væri stefna fyrirtækisins að tjá sig ekki um orðróm og vangaveltur og svaraði því ekki spurningum um mögulega yfirtöku Jákups. Girouard mun setjast í helgan stein í febrúar næstkomandi og segir að enn standi yfir leit að eftirmanni sínum.

Tap Pier 1 nam rúmum fimm milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi sem lauk 25. nóvember, samanborið við 496 milljóna krónu tap á þriðja ársfjórðungi. Heildarsala lækkaði niður í 27,7 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi, en heildarsala þriðja ársfjórðungs nam 31,5 milljörðum króna.