*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 19. nóvember 2018 07:53

Alibaba ekki fyrirtæki heldur lífríki

Yfirmaður hjá Alipay, einum af fjölmörgum öngum af Alibaba samsteypunni segir Jack Ma elskulegan náunga.

Höskuldur Marselíusarson
Xiaoqiong Hu, yfirmaður viðskiptaþróunar Alipay í Evrópu, var í sinni annarri heimsókn hér á landi þegar hún mætti á ráðstefnu SVÞ og SÍF um félagið og viðskipti við kínverska ferðamenn á Hótel Natura í síðustu viku.
Haraldur Guðjónsson

„Ég fullyrði að ekkert annað fyrirtæki í heiminum geti veitt jafnmikla þjónustu á jafnfjölbreyttu sviði og Alibaba,“ segir Xiaoqiong Hu. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá var Hu stödd hér á landi á ráðstefnu Alipay sem er hluti af Ant Financials, fjármálaarmi Alibaba samsteypunnar, en hún er yfirmaður viðskiptaþróunar félagsins í Evrópu.

Íslendingar þekkja líklega flestir þann anga samsteypunnar sem er undir nafninu Aliexpress þar sem hægt er að kaupa hinar ýmsu vörur beint frá Kína. Hafa nú um 870 milljónir manna aðgang að greiðslulausn félagsins í löndum Asíu og telur Hu líklegt að íbúum Evrópu og Bandaríkjanna bjóðist fljótlega að nota lausnina sem sífellt fleiri fyrirtæki bjóði ferðamönnum frá Kína nú að nota til að greiða fyrir vörur.

„Fyrirtækið var upphaflega stofnað til að þjónusta önnur fyrirtæki, með stofnun Alibaba.com árið 1999 af Jack Ma. Þremur árum seinna var Taobao markaðurinn stofnaður fyrir innanlandsviðskipti milli kaupenda og seljenda, en að undanförnu hefur Alibaba svo fjárfest í öðrum geirum. Þar má nefna í afþreyingariðnaði, birgðahaldi og fleiru, en þar hefur félagið annaðhvort verið að kaupa upp fyrirtæki, eins og það gerði með UQ, sem er svona eins og youtube Kína, eða stofna ný.“

Meðal þess má nefna Alibaba Pictures, sem líkja má við Netflix, Alibaba Sports, sem líkja má við ESPN, Alibaba Music, sem líkja má við Spotify, Alibaba News, Koubei, sem er eins og Yelp en það hjálpar til við að leita að veitingastöðum og meðmælum með ýmiss konar afþreyingu ásamt því að þar er hægt að bóka borð og jafnvel skipta reikningum með vinum sínum. „Þess vegna kallar Jack Ma þetta ekki lengur fyrirtæki heldur nýtt hagkerfi, eða lífríki til að þjóna betur innanlandsmarkaði Kína.“

Jack Ma elskulegur í joggingbuxum

Xiaoqiong Hu segir Jack Ma vera mjög almennilegan í viðkynningu. „Við hittumst þegar hann heimsótti skrifstofur okkar í London, þar sem hann spjallaði við okkur. Hann er mjög áhrifamikill en á sama tíma mjög elskulegur náungi sem þú getur talað við á jafningjagrundvelli,“ segir Hu sem segir að ekki megi greina neinn hroka hjá frumkvöðlinum.

„Nei, hann kemur bara í joggingbuxum og strigaskóm þarna í helsta fjármálahverfi London, þar sem skrifstofa okkar er. Svo hann er algerlega hann sjálfur og væri varla hægt að segja að þarna væri maður sem bærist mikið á.“ Hu segir aðspurð út í samskipti við stjórn kommúnista í Kína að félagið fylgi reglum landsins en sé að öðru leyti sjálfstætt einkafyrirtæki á markaði.

„Þar sem við erum stórt fyrirtæki þekkir ríkisstjórnin okkur auðvitað vel, styður við bakið á okkur og við styðjum við ríkisvaldið. Jack Ma hefur sagt að nú þegar fyrirtækið er orðið 18 ára gamalt sé það orðið fullorðið og þurfi að haga sér eftir því. Það eigi ekki að einblína bara á að græða heldur vera ábyrgt gagnvart samfélaginu.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.