Helgi Hrafn Gunnarsson, formaður og þingmaður Pírata, segir að frelsi einstaklingsins og sjálfsákvörðunarréttur hans sé sér mjög hugleikinn. Hann segir þingstörf byggja í veigamiklum atriðum á forgangsröðun, vegna þess að aldrei gefist tími eða tæki til að gera allt sem mann langi til að gera. Hann segir að sín persónulega skoðun sé að það sé ekki réttlætismál að jafna tekjur milli fólks í samfélaginu og að hann hafi alltaf gert ráð fyrir því að fylgi flokksins muni lækka á ný.

Upp að hvaða marki finnst þér að ríkið eigi að reyna að jafna tekjur fólks í samfélaginu?

„Höfum það alveg á hreinu að þetta er mín einkaskoðun, Píratar hafa ekki beina afstöðu til þessa máls. En það að jafna tekjur sé ég ekki sem réttlætismarkmið í sjálfu sér. Ég segi oft við vinstrisinnaðri vini mína, að mér er alveg sama þótt einhver sé ríkur. Ég hef bara áhyggjur af því ef einhver er fátækur.“

Hann segist hins vegar telja að ábyrg hagstjórn, og það að nýta hagkerfið sem best fyrir alla, krefjist þess að það sé einhver jöfnuður.

„En það er hagfræðileg afstaða, það er að­allega af hagfræðilegum ástæðum sem ég tel að það sé skynsamlegt en ekki út af einhverjum réttlætissjónarmiðum. Svo lengi sem enginn er fátækur þá er ég bara sáttur út frá réttlætissjónarmiðum. Mér finnst líka mikilvægt að enginn sé fátækur, það er ekki staðan í dag. Fullt af fólki er fátækt, sérstaklega öryrkjar, ellilífeyrisþegar og svo framvegis. Og auð­vitað bara plain aumingjar, ég vil ekkert að þeir séu fátækir heldur. En mér hefur oft fundist vera meira atast út í ríkidæmi en fátækt.“

Helgi Hrafn er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .