Leitin gengur vel að afleysingamanneskju fyrir Þórgný Dýrfjörð, framkvæmdastjóra Akureyrarstofu, sem er á leið í ársleyfi frá störfum á meðan hann sest á skólabekk. Á þriðjudag voru átta umsóknir komnar í hús. Í dag er síðasta tækifærið til að sækja um starfið og telur Þórgnýr að umsóknir séu komnar á annan tuginn.

Í Viðskiptablaðinu í gær vöktu Huginn & Muninn athygli á því að af auglýsingu megi dæma að ekki sé ætlunin að leita langt yfir skammt að afleysingamanneskju. Gerðar séu hefðbundnar kröfur um háskólamenntun, reynslu á sviði stjórnunar og reksturs, góða skipulagshæfileika og svo framvegis. Sértök athygli var vakin á síðasta liðnum, sem kvað á um reynslu af starfi á einu eða fleiri sviðum skrifstofunnar.

Setti mann í keppnisgír

Þórgnýr segir í samtali við Viðskiptablaðið ekki hafa staðið til að auglýsa starfið til þess eins að leita eftir innanbúðarmanni. „Þetta var röng ályktun og ekki verið að sníða umsóknina til. En það var létt að misskilja auglýsinguna,“ segir hann og viðurkennir að átt hafi verið við að viðkomandi hefði reynslu af einum eða fleirum þeim málaflokka sem heyra undir Akureyrarstofu.

Þórgnýr segir það hafa verið reglu á Akureyri að auglýsa eftir afleysingafólki ef starfsmaður þarf að fara frá í eitt ár eða lengur. Hann rifjar upp að þegar hann sótti sjálfur um starf framkvæmdastjóra Akureyrarstofu á sínum tíma þá hafi hann verið í öðru starfi í bæjarkerfinu. Enginn afsláttur hafi verið gefinn þótt hann hafi verið menningarfulltrúi bæjarins. Hann hafi þurft að keppa við 33 aðra umsækjendur um stöðuna. „Það setti mig bara í keppnisgír,“ segir hann.