Ekki er talið útilokað að Actavis kunni að hækka tilboð sitt og bjóði betur en Barr gerir í króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva, að sögn greiningardeildar Glitnis en Pliva tilkynnti í morgun að það hefði ákveðið að eiga yfirtökuviðræður við bandaríska lyfjafyrirtækið Barr.

Actavis hefur einnig gert tilraun til að kaupa félagið, en óformlegt kauptilboð Actavis nam HRK630 á hlut, samanborið við HKR705 á hlut frá Barr, sem samsvarar um 2,2 milljörðum dollara eða um 167 milljörðum króna.

?Á móti því mælir [kaupum Actavis á Pliva] þó að virðisaukningin til hluthafa Actavis kann að hafa minnkað það mikið að kaupin séu ekki réttlætanleg miðað við hækkað tilboðsverð," segir greiningardeildin.

Að auki gæti söluvilji hluthafa Pliva mótast af áætlunum Barr um framtíð félagsins. ?Til dæmis hvort eigi að byggja upp starfsemina frekar í Króatíu eða mögulega flytja eða leggja niður starfsemi og fækka starfsfólki. Mögulegt er því að Actavis muni á endanum standa uppi sem kaupandi að Pliva," segir greiningardeildin.